Keflavík - Boston - Baltimore - Houston - Galveston.

Ég er ekki frá því að mér leið eins og ég væri komin strax til útlanda þegar ég mætti í Leifstöð í gærmorgun, korter yfir átta.  Búið að breyta svo miklu síðan ég fór seinast erlendis en það var í desmber 2011. Síðast þegar ég flaug þá var ekki í boði að horfa á kvikmyndir á sér skjá heldur horfðu flestir á sama skjáinn svo mér fannst það góð nýjung í gærmorgun að geta valið um kvikmynd og horft á hana einsömul.  Nema hvað ég gafst upp eftir rúman klukkutíma því ég steinsofnaði enda líka með þennan fína ferðapúða sem tekur hálfan bakpokan.  Svo rumskaði ég og kláraði að horfa á „Man on Fire“.  Sofnaði líklega aftur því þessir 5:30 tímar liðu rosalega hratt. Ég tók því extra rólega þegar vélin nam staðar við hliðið enda lá mér ekkert á þar sem það voru 4 tímar í næsta flug og þar fyrir utan þá sat ég næst aftast og komst ekki lönd né strönd.  Þegar ég loksins gekk út úr vélinni þá voru allir horfnir, í pínu stund leið mér eins og Palla þegar hann var einn í heiminum. 

En tölum núna aðeins um CBP, það er ekki nóg með að þeir biðji mann um að fylla út ESTA spurningalistann heldur þurfti ég að fylla út CUSTOMS DECLARATION í flugvélinni sem ég afhenti svo CBP en í millitíðinni fyllti ég út nákvæmlega það sama og ég gerði í vélinni nema þá svaraði ég því á snertiskjá sem einnig skannaði fingur og svo var tekin mynd af mér.  Þá var komið að því sem margir vöruðu mig við þegar ég nefndi að ég væri á leiðinni til TexasVertu viðbúin útlendingaeftirlitinu!.  Ég var orðin svo tilbúin að ég var búin að ímynda mér nánast allt það versta sem gæti gerst akkúrat þegar það kæmi að mér.  En að sjálfsögðu gerðist ekki baun þar sem ég var sultu slök eins og sjálft útlendingaeftirlitið var því það var ekki nema einn að störfum ESTA megin þegar vél Icelandair lenti.  Ferlið tók einn klukkutíma.  Þó þurfti ég einungis einu sinni að fegra sannleikann en ég var spurð hvar ég ynni og svaraði ég því með að segja „Post Office“.

Þá var að koma sér yfir í innanlandsflugið, ég hefði betur átt að kveikja á Endomondo og mæla þessa vegalengd.  Jiminn eini.  Ekki það að ég hafði svo sem nógan tíma, 3 tímar í næsta flug.  Ég gekk í mestum makindum, svitnaði heilan helling en sem betur fer var rigning úti sem kom í veg fyrir að ég dó úr hita og svita.  Ég hefði getað notað færiböndin svona til að létta undir en ég nennti því bara ekki.  Sá litla hjálp í því.  Þetta var líka hin fínasta hreyfing og verðlaunaði mig með mínum fyrsta Donkin´Donuts.  Aðrir hefðu fengið sér bjór tongue-out

En til að gera langa sögu stutta þá gekk ferðalagið í heild sinni vel, tíminn leið sem betur fer ótrúlega hratt þó ég þurfti mikið að bíða án þess að geta gleymt mér á netinu í símanum.  Einhverra hluta vegna gat ég og get ekki tengst netinu í símanum og mun þar af leiðandi ekki senda nein snöp til ykkar elsku vinir.  En ég gekk þá bara aðeins um, fékk mér að borða og fylgdist með fólkinu.

Það slökknaði þó aðeins á skemmtuninni þegar ég lenti í Baltimore en ég lenti þar klukkutíma of seint vegna seinkunnar í Boston.  Þar sem ég átti ekki nema hálftíma í næsta flug þá þurfti ég að gefa í þar sem ég þurfti jú að koma mér alveg hinum megin í næstu byggingu.  Og mér til mikillar skemmtunar þá beið mín tilkynning um að flugið til Houston myndi seinka um 3 tíma.  Við tók þá biðin endalausa þar sem ég var orðin frekar þreytt og hafði lítið fyrir stafni.  Ekki gátu þeir ákveðið hvaða hlið þeir vildu hafa okkur svo við þurftum tvisvar sinnum að hendast á milli hliða sem voru eins langt í burtu og hægt er.  Þessari skemmtun lauk þó ekki þó við komumst í loftið að verða 23 því þegar ég lenti 3 klukkustundum seinna í Houston þá var enga ferðatösku að finna.  Oooooh!  En við því var nú lítið hægt að gera og lofaði afgreiðslustúlkan mér að ég fengi töskuna upp að dyrum eins fljótt og hægt var.  Viti menn, Houston hafði samband í morgun og tilkynnti okkur að ferðataskan myndi koma til okkar milli 11-15 sem stóð ekki þar sem við vinkonurnar erum ennþá að bíða.  En hún hlýtur að fara koma.  

Planið var að fara í Walmart strax og ferðataskan kæmi svona til að versla það nauðsynlegasta fyrir þrjátíu stiga hita en við frestum því þangað til í fyrramálið. 

Læt þetta duga í bili.  Heyrumst.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið er það gott að ferðalagið gekk vel😁

Heiða (IP-tala skráð) 3.6.2015 kl. 21:39

2 identicon

Gott að heyra að þú ert komin á leiðarenda eftir langt ferðalag.  Hafðu það sem allra best í fríinu og ég bið að heilsa Beggu :-)   njótið ykkar í tætlur saman skvísurnar.

Lára (IP-tala skráð) 3.6.2015 kl. 22:23

3 identicon

Skemmtileg saga..góða skemmtun áfram!

Pabbi (IP-tala skráð) 4.6.2015 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband