Texas ævintýrinu er senn á enda.

Við fengum leiðinlegt veður í byrjun vikunnar.  Fengum 3 daga sem ýmist rigndi látlaust eða í nokkrum skömmtum.  En við Begga létum það samt sem áður ekki stoppa okkur.  Við náðum að skella okkur í Baybrook Mall á mánudaginn áður en leiðinda veðrið skall á.  Ég átti bara eftir að finna á mig gallabuxur og þegar þær loksins fundust þá vildi ég ólm komast í burtu enda búin með verslunarkvótann.  Við skelltum okkur svo á The Cheesecake Factory sem var beint á móti mollinu en ég var að prófa hann í fyrsta skipti.  Ég hafði nokkrum sinnum heyrt veitingastaðinn nefndan á Íslandi en hafði enga hugmynd um hverskonar veitingastaður þetta væri.  Það lá við að það opnaðist nýr heimur þegar ég gekk þangað inn.  Ég var enga stund að ákveða aðalréttinn en aftur á móti þegar kom að því að velja ostaköku í dessert þá vandaðist málið, ég hef barasta aldrei séð svona langan dessert-lista á einum matseðli áður.  En ég fór hin ánægðasta þaðan út með mjög svo fullan maga af mat.

Á þriðjudeginum var heljarinnar rigning en við vinkonurnar skelltum okkur í bíó.  Sáum Jurassic World klukkan 15:15.  Ótrúlegt en satt þá er dýrara að versla í bíósjoppunni  hér en heima.  En þó er sjálfur bíómiðinn ódýrari.  Fyrir 18 á daginn kostar $6 og $8 eftir það.  T.d bara lítið gos kostar $4.5 sem samkvæmt isb.is er 592 kr.  En fyrir okkur Beggu keypti ég tilboð sem innihélt 2x stórt gos + 1x stór popp og fékk ég 10% afslátt en borgaði samt sem áður $16 sem eru rúmar 2100 krónur. 

Tengdaforeldrar Beggu buðu okkur svo í grill um kvöldið, ég gerði þau mistök að taka ekki með mér myndavél í það skipti þar sem ég hefði gjarnan viljað sýna ykkur stærðina á nautasteikinni sem ég fékk og át með bestu lyst. Þetta var alvöru stærð á alvöru nautasteik!

Daginn eftir eða á miðvikudeginum 17.júní hélt áfram að rigna eitthvað.  Við vinkonurnar fórum aðeins að útrétta og á heimsleiðinni komum við í PattyCakes sem er lítið bakarí í miðju íbúahverfi sem selja alvöru CupCakes.  Ó mæ lord – hvað þær voru góðar.  Reyndar keypti ég tvær öðruvísi kökur fyrir utan sjálfa bollakökurnar.  Þessar öðruvísi voru OF góðar.  Bollakökurnar voru mjög góðar en hinar tvær slógu út öll met. 

Dagskráin hélt áfram næsta dag en þá var rigningin formlega hætt í Galveston en við skelltum okkur á góðan hamborgarastað downtown.  Staður þar sem ég pantaði og borgaði, svo þegar ég fékk hamborgarann í hendurnar þá setti ég sjálf sósu og grænmeti á.  En þar sem við vorum komin downtown þá röltuðum við um miðbæinn, skoðuðum okkur um í nokkrum túristabúðum þar sem ég nældi mér í fáeinar litlar gjafir. 

Houston var það heillin á föstudaginn.  Skelltum okkur í dýragarðinn, vorum komin snemma eða upp úr klukkan 10:00.  Það var heiðskírt og heitt þennan daginn.  Það var svo heitt og mollulegt að það gjörsamlega lak af okkur svitinn, við hefðum betur átt að taka auka bol með okkur en á mér allavega var ekki þurr blettur.  Eftir tveggja tíma rölt um dýragarðinn þá fórum við á indverskan veitingastað í einu af betri hverfum Houston.  Það var alveg inni í planinu að rölta aðeins um en þar sem það byrjaði allt í einu að hellirigna þá slaufuðum við því. Við rétt komust inn í bílinn áður en seinni demban byrjaði. Ég fékk góða innsýn inn í sjúkrahús-hverfið en við keyrðum í gegnum það á leið okkar út úr Houston.  Þetta er ekki eins og Grey Sloan Memorial Hospital sem er eitt sjúkrahús með trilljón deildum kissheldur virðist vera eitt sjúkrahús fyrir hverja deild frekar.  Ekkert smá mörg sjúkrahús líka.

Í gær, laugardag fórum við á ströndina í annað sinn.  Þar náði ég mér í ennþá meiri brúnku, brenndist aðeins.  Í dag sunnudag fórum við í Walmart að versla, ég þurfti að kaupa mér auka töksu svo ég kæmi nú örugglega öllu dótinu mínu heim og er ég búin að pakka niður.

Á morgun er allra síðasti dagurinn minn hérna í Galveston Tx.  Því það er brottför eldsnemma á þriðjudagsmorgun.  Planið á morgun er að fara út að borða á alvöru Texas-steikhús. Ég ætla ekki að gleyma myndavélinni svo mikið er víst. 

Góðar stundir, þangað til næst.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Và hvað mig hlakka til að sja og heyra ferðasöguna😁😝😉

Heiða (IP-tala skráð) 22.6.2015 kl. 03:19

2 Smámynd: Lára Harðardóttir

Komdu þér þá heim aftur kona og bjóddu mér í heimsókn. 

Lára Harðardóttir, 6.7.2015 kl. 01:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband