Hva, bara engin ritstífla í dag.

Mér finnst einhverra hluta vegna vera mjög langt síðan ég bloggaði seinast.  Samt eru ekki nema 8 dagar síðan sem er jú ekkert svo langur tími.  Ég setti mér markmið þegar ég stofnaði þetta blogg að ég ætlaði bara að blogga á virkum dögum og þá bara þegar ég væri stödd @ Janus.  Þar sem virku dagarnir eru ekki nema 5 og suma dagana gefst varla tími til að blogga vegna anna en ég þarf jú að fylgja ákveðinni stundaskrá @ Janus.

Svo lendi ég stundum í því loksins þegar ég hef tíma þá finnst mér ég hafa nákvæmlega ekkert að segja eða með svo mikla ritstíflu að mig langar að garga á tölvuskjáinn.  Sem ég sleppi reyndar.  Því Lára öskrar ekki!

Síðustu tvær vikur hafa liðið alveg ótrúlega hratt finnst mér.  Eina breytingin er einkaþjálfunin í boxi en það munar svo sannarlega að bæta því inn í rútínuna mína sem var nú ekki mikil fyrir.  Ég er varla farin frá Hnefaleikastöðinni þegar ég mæti þangað aftur.  Svo fljótur er tíminn að líða. 

En það er bara gaman.  Því þá er skemmtilegt.  Og þegar það er skemmtilegt þá líður mér vel.

Síðasta vika tók reyndar svolítið á andlega séð.  Ekki á neikvæðan hátt samt.  Síðasta miðvikudag tók ég greindar- og vitsmunapróf hjá sálfræðingnum mínum sem tæmdi á mér heilann gjörsamlega.  Við sátum streitulaust í heila 2 tíma, hann spurði mig spjörunum út og ég gerði mitt besta að finna svarið við spurningunum en reglulega þurfti ég að kafa djúpt inn í heila til að finna svarið.  Og sumar spurningarnar.  Vá! 

Ég þurfti ekki bara að svara spurningum heldur þurfti ég að leysa nokkrar þrautir innan ákveðins tímaramma.  Ég fann svo sem ekkert fyrir því að sitja í þessa 2 tíma og svara non stop, mér þótti þetta próf í heildina áhugavert en líka þreytandi til lengdar.  Samt pínu skemmtilegt en líka erfitt.  Eftir prófið brunaði ég beint heim, lagðist á sófann og rotaðist.

En ástæðan fyrir þessu prófi var sú að þetta er hluti af greiningarferli sem ég er að byrja í en hugsanlega er ég með Asperger.  Ég skora allavega hátt í skimuninni.

Sagan er ekki búin.  Daginn eftir mætti ég svo í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna þar sem ég átti bókaðan tíma en ég ákvað að taka þátt í rannsókn á vegum Íslenska erfðagreiningu í þágu vísindanna.  Eina sem ég vissi fyrirfram var að ég átti að mæta 12:45, rannsóknin myndi vara í 3-4 tíma og það væri tekin blóðprufa.  Og þurfti ekki að vera fastandi.  Gott mál.

Fyrst var ég mæld mjög nákvæmlega á alla vegu og teknar myndir af mér.  Svo var ég spurð endalausra persónulegra spurninga.  Eftir það svaraði ég öðru spurninga flóði sem ég þurfti að hlusta á með góðri athygli.  Leysti nokkrar athyglis-þrautir á snertiskjá líka.  Til að toppa þessa rannsókn þá þurfti ég að taka samskonar greindar- og vitsmunapróf sem ég tók deginum áður.  Great!  Sem betur fer voru spurningarnar og þrautirnar ekki alveg þær sömu en samt mjög líkar.  Ég byrjaði nú bara að geispa akkúrat á þessum tímapunkti.  Þó mér hafi fundist prófið deginum áður pínu skemmtilegt þá langaði mig ekkert sérstaklega að taka það aftur, hvað þá næsta dag.  Mér tókst þó að leysa eina þrautina sem mér tókst ekki í fyrri tilrauninni.  En eitt af verkefnunum var að raða saman nokkrum kubbum sem átti að sýna ákveðna mynd og það undir ákveðnum tímaramma.  Þessi ákveðna mynd var flókin en ég notaði aðra sýn á það verkefni í seinna skiptið.  Og búmm.  Tókst að leysa hana. 

Til hamingju Ég.

Allra síðasta verkefnið mitt á þessari rannsóknastofu var að sitja fyrir framan tölvuskjá (snertiskjá) með fulla athygli en ég þurfti að horfa 180 sinnum á sama einstaklinginn sem birtist ekki nema í 1 sekúndu og taka eftir hvaða svipbrigði hann var með.  Ég þurfti ekkert frekar að vera exstra fljót að svara en ég hafði um 6 svipi að velja; undrun, hamingjusamur, depurð, andstyggð, ótta og reiði.  Eftir fyrstu 90 andlitin þá mátti ég taka pásu sem ég afþakkaði því mig langaði að klára þetta verkefni sem fyrst svo ég gæti brunað heim og andast á sófanum mínum.  Þarna var klukkan líka að nálgast 16:30. Geisp! 

Umbunin mín fyrir að gefa mér tíma og taka þátt voru 10.000 krónur gjafabréf í Kringluna.  Gat líka valið um Smáralind.  Hefði líka geta valið að fá 66 gráður Norður peysu sem ég mátaði en hún fór mér ekki vel.  Ég persónulega hefði tekið þátt þó ég hefði ekki fengið neitt fyrir, allt fyrir þágu vísindanna.  Það er svo mikið Ég.

 

Jæja, læt þetta duga í bili. 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband