Tómur magi er ekki vænn kostur.

Ég man þá tíð þegar ég fékk alvöru flugmiða í hendurnar eftir að hafa pantað og borgað flug til útlanda á ferðaskrifstofu.  Það var ákveðin stemming í því.  Að fá alvöru flugmiða í hendurnar gerði komandi ferðalag miklu skemmtilegra.  Líka bara stuð að geta flaggað flugmiðunum fyrir framan nefið á næsta manni, hóhóhó!

Ég mun fá lítið út úr því að flagga A4 skjalinu sem ég prentaði sjálf út í gærkvöldi fyrir framan aðra, þið ættuð að geta séð muninn ef ég myndi standa fyrir framan ykkur; annars vegar flaggandi gömlu flugmiðunum eða ómerkilegum pappír sem útprentað A4 skjal er(fyrir utan innihaldið).

Einmitt - ég vissi það!  Þið hefðuð ekki hugmynd um hvað ég væri að monta mig af ef ég myndi standa fyrir framan ykkur með breitt brosið og útprentað skjal.  Ekki séns!

Annars heimsótti ég Sýslumanninn í Kópavogi í gær til að sækja um nýtt vegabréf þar sem mitt gamla rann út árið 2013.  Ætlunin var að fá mér að borða á undan því mig grunaði að ég kæmist ekki strax að.  Alltaf best að vera með fullan maga þegar dágóð bið er framundan.  Skynsamlega hugsað Lára!  En sú hugsun stoppaði ekki lengi þar sem ég var mætt til sýslumannsins með tóman maga.  Oooh Lára!

Bílastæðin eru jú ekki mörg þarna á Dalveginum en mig grunaði ekki hversu margir voru þegar mættir.  Þvílíkur fjöldi!  Það hjálpar ekki til hversu lítil afgreiðslan er svona miðað við hvað starfsemin er stór þarna. Samkvæmt miðavélinni fékk ég númerið 292 klukkan 12:54. Ætli ég hafi ekki beðið í svona 10-15 eftir afgreiðslu hjá gjaldkera.  Svo fann ég mér bara aftur sæti því biðröðin í vegabréfa-myndatökuna var ekki stutt. 

Ekki nóg með að ég var með tómann maga sem byrjaði að láta vita af sér þegar ég var búin að sitja sem fastast í dágóða stund heldur þurfti ég líka að pissa.  Sem betur fer var ég ekki alveg í spreng en það hefði verið ljúft að geta létt á sér samt sem áður.  Hvort sem það var hægt að komast á salerni þarna þá ætlaði ég samt ekki að gefa sætið mitt og það á tómum maga vitandi til þess að ég þyrfti líklegast að standa lengi eftir afgreiðslu.  Svo ég hélt í mér og maginn með garnagaul. Stuð!

Það var svo klukkan 14:30 sem 292 poppaði upp á skjáinn.  Yndislegt!  Við spjölluðum aðeins saman ég og afgreiðslukonan sem afgreiddi mig með nýja vegabréfið.  Við áttum ekki orð yfir því hvað það væri búið að vera mikið að gera.  Þó hún virtist vera afslöppuð þá fann ég fyrir stressi sem kom í ljós þegar myndatakan byrjaði, fyrsta myndin misheppnaðist svo hún tók aðra mynd sem var lítið skárri samt.  En mér fannst ég ekki geta beðið hana um að taka aðra mynd því það voru jú trilljón manns þarna frammi svo ég samþykkti hana.  Ó mæ god - sá eftir því strax!  En sem betur fer hef ég aldrei verið mikið fyrir því að flagga vegabréfinu mínu framan í aðra.  Og mun halda því áfram, allavegana næstu 10 árin eða svo.  Vegabréfið gildir jú bara í tíu ár.

Ég passaði vel upp á að gera ekki sömu mistök og seinast þegar ég fór í myndatöku fyrir vegabréf en á gömlu myndina vantaði augabrúnir. Ég er með svo ljósar augabrúnir að ef ég dekki þær ekki þá sjást þær ekki.  

Dagsverki mínu þennan daginn lauk strax og ég skrifaði undir nýja vegabréfið.  Var ekki lengi að láta mig hverfa og brunaði beint heim með viðkomu í Bónus Ögurhvarfi.  Byrjaði á því að létta á mér, borðaði svo og endaði á að næla mér í smá beuty svefn. 

Ég var uppgefin enda hafði ég nóttina áður legið andvaka í nokkra klukkutíma og var þar af leiðandi ósofin líka.

Takk í dag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Já, það er ekki endilega alltaf ,,veröld ný og góð". Ég er hjartanlega sammála því að gömlu góðu flugmiðarnir hreyfðu meira við ferðageninu. Þökkum fyrir að vegabréfin eru þó ennþá upp á gamla mátann en ekki útprentað skjal í A4 eða A5.

Erna Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 8.4.2015 kl. 17:34

2 identicon

já afgreiðslan er ekki hröð hjá sýslumanni. Skil ekki að það skuli ekki vera ráðnir fleiri þarna inn. 

Jiiii hvað það á samt eftir að vera gaman hjá þér í sumar í Ameríku ;) 

Kristín (IP-tala skráð) 8.4.2015 kl. 23:19

3 Smámynd: Lára Harðardóttir

Ég segi það sama Erna, ég þakka fyrir það að vegabréfið sé ekki komið í sama pakka og blessuðu flugmiðarnir.  Þeir eiga það nú kannski bara eftir.  Vonandi ekki samt!

Kristín, svona miðað við hvað það getur verið mikið að gera þá ættu þeir bara að vera með þessa vegabréfs-myndatöku á öðrum stað.  Væri ekki vitlaust að geta boðið meiri hlutanum sæti svona á meðan beðið er.  

Lára Harðardóttir, 9.4.2015 kl. 01:54

4 identicon

Mundu bara næst þegar þú þarft að fara í svona leiðangur að taka nesti  með þér:) 

Aðalheiður Dagmar Einarsdóttir (IP-tala skráð) 9.4.2015 kl. 08:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband