Nú veit ég það.

Nú er ég eirðarlaus vegna þess að mér leiðist.  Ég hef lengi pælt í því af hverju ég finn oft fyrir eirðarleysi.  Hef aldrei vitað ástæðuna. En hana veit ég núna þar sem ég fékk smá fyrirlestur um "Leiða" í síðustu viku.

Leiði og eirðarleysi haldast nefnilega í hendur.  Ekki þó alltaf en oft.  Eirðarleysi er ákveðin tilfinning sem ég þarf að einbeita mér betur að framvegis vegna þess að þegar sú tilfinning poppar upp á yfirborðið þá er undirmeðvitundin að benda mér á að mér leiðist.  Svo einfalt er það!  

Þetta er svipað og með kvíða, stundum finnur maður fyrir honum án þess að átta sig á af hverju hann er til staðar.  En það er alltaf einhver orsök, bara misjafnt hversu langt maður þarf að leita til að finna hana.  Undirmeðvitundin er nefnilega merkilegt fyrirbæri að mínu mati.

Eins og í mínu tilviki þá er áhugamálið mitt krosssaumur sem ég dunda mér mikið í þegar ég er heima.  Að sjálfsögðu er ég ekki alltaf í stuði fyrir handavinnuna en þegar mér leiðist þá reyni ég mitt allra besta að taka í krosssauminn því ég nenni ekki að láta mér leiðast allt of lengi.  Aftur á móti koma tímabil sem ég finn fyrir miklu eirðarleysi með leiðanum og nenni þá ómögulega að taka upp handavinnuna sem ég hef hingað til ekki skilið þar sem krosssaumur er það skemmtilegast sem ég geri.

En þá er vandamálið það að mér leiðist einfaldlega það sem ég er að sauma þess vegna er ég stundum heila eilífð með ákveðin saumaverkefni og finn fyrir ákveðinni kvöð að komast í gegnum verkefnið. 

Sem betur fer hefur það ekki gerst oft.  7-9-13.  Er þó reyndar í þessum aðstæðum núna en verkefnið er langt komið.  Sé fyrir endanum á því.  Saumaði á mánudagskvöldið í nokkra tíma, ætla reyna endurtaka leikinn í kvöld. Ætla vera búin með verkefnið eigi seinna en 1.júní.


Smá updeit.

Föstudagar eru oftast bestu dagarnir en í dag er hann sérstaklega góður þar sem annað kvöld fæ ég nokkrar skvísur heim í partý. En við ætlum nokkrar saman á dansiball á Spot þar sem Páll Óskar mun halda uppi stuðinu. Ég djamma afar sjaldan,fer orðið á nokkra mánaða fresti. Sem er líka hið besta mál. Djamma mest megnis á Spot því ég vil helst dansa en þar spila allar þær helstu hljómsveitir sem skemmtilegt er að sveifla sér við.

Annars er það að frétta að nú styttist óðum í að ég geti byrjað að sækja um störf þar sem ferilskráin er sama sem tilbúin. Á bara eftir að leggja lokahönd á hana sem felst í að setja inn mynd og yfirfara hana. Ég ætlaði nú bara að finna mynd af mér í safninu mínu,minnka hana og smella henni inn á ferilskrána en það vill svo til að allar myndirnar mínar eru teknar í of mikilli nærmynd. En þá er það bara plan B en ég er svo heppin að ég á frænku sem er ljósmyndari en hún ætlar að vera svo góð að smella einni ef ekki tveimur myndum af frænku sinni.

 

Takk í dag. Eigið góða helgi.


Í dag er mánuður í brottför.

Bloggheimurinn er opinn allan sólarhringinn.  Þó hefur það verið venjan hjá mér að blogga þegar dagsbirtan er.  Því á nóttunni á ég að vera sofandi.  En undanfarna daga hef ég þurft að sofa rosalega mikið.  Hef tekið lögn á daginn en samt getað sofnað á mínum venjulega háttatíma, já svona sirka.  Það dugar mér alveg að sofa í 6-7 klukkustundir svo minn háttatími er eftir miðnætti.  Aftur á móti var lögnin í dag of löng þar sem ég rotaðist gjöramlega í 3 tíma vegna mikilla verkja í maganum.  Svo mér datt í hug að blogga núna frekar en að liggja uppí andvaka og telja kindur. 

Sem ég hef gert.  Allavega tvisvar sinnum.  Í bæði skiptin taldi ég upphátt uppá 1000 kindur.  Það hjálpar auðvitað lítið að svæfa sjálfan sig með því að telja í hljóði, svo ég taldi ein kind, tvær kindur, þrjár kindur ........ hundraðogfimm kindur ...... þrjúhundruðogsjötíuogníu kindur ..... sjöhundruðognítíuogníu kindur ..... þúsund kindur.  Kom mér á óvart hvað ég var fljót að þessu.  Kosturinn að búa ein er að geta talið kindur upphátt án þess að vekja makann wink

Box æfingin í dag gekk brösulega þar sem magaverkurinn þurfti endilega að byrja í miðjum boxtíma.  En ég hætti ekki strax þó ég var að DREPAST.  Það var hreint helvíti að boxa á fullu með þennan ógeðis verk.  Ég hætti þegar ég átti 20 mínútur af tímanum.  En annars ákvað ég að halda mig við fyrsta planið og halda áfram að læra að boxa því mér finnst það svo SKEMMTILEGT.  En ég var búin að segja ykkur að ég hafi gefið Villa þjálfara lausan tauminn með að breyta æfingunum svona aðallega til að ég myndi léttast hraðar fyrir Texas.  En til þess að léttast þarf ég jú líka að borða hóflega og hollari mat.  Sem ég er því miður ekki að gera þessa vikurnar.  Allavega ekki eins og ég myndi vilja hafa það.  En ég er þó aðeins byrjuð að vera harðari við mig.  Eitt lítið skref í einu.  Gleymi nánast alltaf að pæla í því.  Annað hvort er allt eða ekkert hérna megin.  En það sem ég vildi segja er það að ég ætla halda áfram að læra að boxa, einbeita mér að því enda finnst mér box hrikalega skemmtilegt og bara rugl að þykjast ætla að grennast hraðar fyrir eina utanlandsferð.  Ég þekki nú sjálfa mig það mikið að ég veit ég mun ekki hoppa úr stærð L í extra S á 4 vikum.  Eins og ég geti ekki keypt slatta af fötum þó ég noti stærð M/L en ég var einhverra hluta vegna búin að ímynda mér að það væri miklu skemmtilegra að kaupa slatta af fötum í smærri stærð.  Pffffffff, meira ruglið að hugsa þetta svona.

Einu skilyrðin fyrir Texas er að skemmta mér vel – ég verð virkur matarfíkill þessar þrjár vikur á meðan ég dvel úti.  Og hana nú cool.  En ég ætla samt að taka æfingaskóna með mér út. Taka t.d. einn röskan göngutúr í hitanum til að eiga inni fyrir einum ísköldum tongue-out

 

 

 

 


Þriggja daga gleði.

long-weekend-620x350

Vegna anna í vikunni þá komst ég ekki í að blogga en ég LOFA að gera það strax eftir helgi þar sem það verður FRÍ á morgun.

Annars bið ég ykkur um að njóta helgarinnar!

Stuðkveðjur

LáraH.

 

 

 


Go Girl.

Fyrsti mánuðurinn í boxi lauk formlega á mánudaginn var.  Í tímanum fyrir helgi þá ældi ég því út úr mér við Villa þjálfara að mig langaði að léttast aðeins fyrir Texas ferðina mína. Við urðum sammála um að breyta æfingunum og einbeita okkur minna að boxinu en fyrsti mánuðurinn fór í að læra að boxa fyrst og fremst.  Enda var það ástæðan fyrir endurkomu minni í Hnefaleikastöðina, læra að boxa. Ekki bara það heldur sigrast líka á ákveðnum félagslegum kvíða og sanna það fyrir sjálfri mér að ég GET - ÆTLA - SKAL.  Sem ég hef svo sannarlega gert undanfarinn mánuð.  Go Girl!

Nema hvað að Villi þjálfari umturnaði öllu æfinga-systeminu sem ég er aðeins búin að bölva enda eru æfingarnar sem hann hefur látið mig gera undanfarna tvo daga eitt HELL. Þ.a.e.s fyrir mig.

Æfingin í gær var svona - Upphitun: Sippaði 3x3mínútur.

Æfingahringur 1: Hljóp stóra salinn fram, ein armbeygja með boxhönskunum, hljóp aftur tilbaka og boxaði 30x í fókuspúða. 4 mínútur samfleytt.  Pása í 3 mínútur.  Endurtók hringinn aftur.

Æfingahringur 2: Hljóp stóra salinn fram, 5x hnébeygjur, hljóp aftur tilbaka, boxaði 30x í fókuspúða.  4 mínútur samfleytt. Pása í 3 mínútur.  Endurtók hringinn aftur.

Æfingahringur 3: Hljóp stóra salinn fram, 7x hnébeygjur, hljóp tilbaka og svo fram og tilbaka aftur, boxaði 30x í fókuspúða.  4 mínútur samfleytt.  Pása í 3 mínútur.  Endurtók hringinn tvisvar sinnum.

Tók svipaða æfingu á mánudaginn svo harðsperrurnar í dag eru viðbjóður svo ég segi satt frá.  Það er aðeins skárra núna að setjast niður en að standa upp og byrja ganga er barasta mjög vont.

Annars er það að frétta að ég er byrjuð að undirbúa komu mína út á almenna vinnumarkaðinn eftir 5 ára fjarveru.  Vá, trúi því varla að það eru komin fimm ár en tíminn hefur svo sannarlega liðið hratt en samt ekki.  En ég hef síður en svo setið auðum höndum allan þennan tíma.  Í tvö ár sat ég á skólabekk og vann aukavinnu með hjá Póstinum sem og á sumrin.  Þótt ég hafi unnið þar þá vil ég ekki meina að ég hafi verið úti á almennum vinnumarkaði þar sem ég þekki Póstinn.  Of vel satt að segja.  Hef unnið þar mikið í gegnum árin svo það hefur verið mitt annað heimili.  Allir þekkja mig og ég þekki alla. Þekki starfið út og inn þar sem ég lærði á allt í deildinni minni.

En það sem skiptir mestu máli er að ég er búin að vinna rosalega mikið í sjálfri mér síðustu 18 mánuði.  Fyrstu 10 mánuðina sá ég um endurhæfinguna mína sjálf með smá aðstoð en frá því að ég byrjaði í Janus fyrir 8 mánuðum þá tóku þeir við endurhæfingunni.  Nema hvað að ég hef ráðið ferðinni mest megnis síðan mánaðamótin jan/feb en þá byrjað ég á nýrri braut.  En það er ekki þar með sagt að líf mitt varð hamingjusamara og lífið léki við mig þó blessuð endurhæfingin hófst loksins eftir dágóða bið.  Því miður.  Það var ekki þannig. 

Líf mitt tók góðan kipp fyrst núna um mánaðamót feb/mars, s.s 5 mánuðum eftir að ég byrjaði í Janus.  Það er orðið auðveldara og skemmtilegra en áður.  En er ég orðin hamingjusöm?

Það er nefnilega stóra spurningin!  

Það verður framhald í næsta bloggi laughing

 

 

 


Önnur rannsókn í þágu vísindanna.

Það var haft samband við mig á mánudaginn frá Þjónustumiðstöð Rannsóknaverkefna og ég beðin um að mæta í aðra rannsókn sem ég var þegar búin að gefa grænt ljós á.  Þessi rannsókn var gerð í Domus Medica @ Röntgen þar sem ég var send hvorki meira né minna en í segulómun á höfði(MR).

En fyrst þurfti ég að svara hinum ýmsum krossa-spurningum  sem og leysa þrautir á tölvuskjá sem var reyndar bara æfing þar sem ég átti að leysa þessar þrautir á meðan ég væri í segulómtækinu.  Þrautirnar voru nokkrar, ein sem stóð upp úr, þessi sem ég þurfti að einblína vel á tölustafi sem birtust á skjánum í nokkrar sekúndur og leggja þær á minnið.  Svo átti ég að svara þrautinni með tölunni sem birtist í þar næstsíðasta skipti.  Öllum þrautunum svaraði ég með litlu tæki sem ég hélt á í hægri hendi.

Hér fyrir neðan útskýri ég aðeins ferlið með hjálp heimasíðu www.rd.is:

Mér var vísað í klefa þar sem ég var beðin um að klæða mig úr nánast öllu og í slopp.  Ég var líka látin taka af mér alla skartgripi og lausa málmhluti.  Einnig þurfti ég að taka af mér maskarann en í honum eru málmagnir sem setjast innan á tækið og gefa myndgalla. 

Svo kom geislafræðingur sem kom mér fyrir á rannsóknarbekknum.  Þar til gert lofnet var látið umlykja höfuðið og fékk ég svo breitt yfir mig teppi.

Ég fékk neyðarbjöllu í hendina til öryggis svona ef skyldi að ég vildi láta stöðva rannsóknina eða ná sambandi við geislafræðinginn.  Bekknum var svo rennt inn í segulómtækið þannig að höfuðið mitt var í miðju tækinu.

Meðan á myndatöku stóð gaf tækið frá sér mikinn hávaða, síendurtekin bankhljóð en ég fékk eyrnatappa.

Þar sem ég á ekki við innilokunarkennd að stríða þá leið mér barasta vel að liggja með höfuðið þéttingsfast inni í þessu "loftneti".  Þetta loftnet er svona næstum því eins og hjálmur sem situr fastur við allt höfuðið nema þú sérð út um gat og horfir beint á tölvuskjá.  Ég var í tækinu í klukkutíma, hefði léttilega getað sofið allan tímann en fékk einungis að slappa af fyrstu fimmtán mínúturnar.  En þá tóku við blessuðu þrautirnar sem héldu mér vakandi það sem eftir var. 

Það fyrsta sem geislafræðingurinn spurði mig þegar þessari skemmtun lauk hvort ég hafi verið með teina einu sinni en þá mundi ég allt í einu eftir því að ég er ennþá með litla málmplötu í munninum.  Úps! 

Læt þetta duga í bili.  Lítið annað ómerkilegt búið að gerast í mínu lífi undanfarna daga.

Takk í dag.


Tómur magi er ekki vænn kostur.

Ég man þá tíð þegar ég fékk alvöru flugmiða í hendurnar eftir að hafa pantað og borgað flug til útlanda á ferðaskrifstofu.  Það var ákveðin stemming í því.  Að fá alvöru flugmiða í hendurnar gerði komandi ferðalag miklu skemmtilegra.  Líka bara stuð að geta flaggað flugmiðunum fyrir framan nefið á næsta manni, hóhóhó!

Ég mun fá lítið út úr því að flagga A4 skjalinu sem ég prentaði sjálf út í gærkvöldi fyrir framan aðra, þið ættuð að geta séð muninn ef ég myndi standa fyrir framan ykkur; annars vegar flaggandi gömlu flugmiðunum eða ómerkilegum pappír sem útprentað A4 skjal er(fyrir utan innihaldið).

Einmitt - ég vissi það!  Þið hefðuð ekki hugmynd um hvað ég væri að monta mig af ef ég myndi standa fyrir framan ykkur með breitt brosið og útprentað skjal.  Ekki séns!

Annars heimsótti ég Sýslumanninn í Kópavogi í gær til að sækja um nýtt vegabréf þar sem mitt gamla rann út árið 2013.  Ætlunin var að fá mér að borða á undan því mig grunaði að ég kæmist ekki strax að.  Alltaf best að vera með fullan maga þegar dágóð bið er framundan.  Skynsamlega hugsað Lára!  En sú hugsun stoppaði ekki lengi þar sem ég var mætt til sýslumannsins með tóman maga.  Oooh Lára!

Bílastæðin eru jú ekki mörg þarna á Dalveginum en mig grunaði ekki hversu margir voru þegar mættir.  Þvílíkur fjöldi!  Það hjálpar ekki til hversu lítil afgreiðslan er svona miðað við hvað starfsemin er stór þarna. Samkvæmt miðavélinni fékk ég númerið 292 klukkan 12:54. Ætli ég hafi ekki beðið í svona 10-15 eftir afgreiðslu hjá gjaldkera.  Svo fann ég mér bara aftur sæti því biðröðin í vegabréfa-myndatökuna var ekki stutt. 

Ekki nóg með að ég var með tómann maga sem byrjaði að láta vita af sér þegar ég var búin að sitja sem fastast í dágóða stund heldur þurfti ég líka að pissa.  Sem betur fer var ég ekki alveg í spreng en það hefði verið ljúft að geta létt á sér samt sem áður.  Hvort sem það var hægt að komast á salerni þarna þá ætlaði ég samt ekki að gefa sætið mitt og það á tómum maga vitandi til þess að ég þyrfti líklegast að standa lengi eftir afgreiðslu.  Svo ég hélt í mér og maginn með garnagaul. Stuð!

Það var svo klukkan 14:30 sem 292 poppaði upp á skjáinn.  Yndislegt!  Við spjölluðum aðeins saman ég og afgreiðslukonan sem afgreiddi mig með nýja vegabréfið.  Við áttum ekki orð yfir því hvað það væri búið að vera mikið að gera.  Þó hún virtist vera afslöppuð þá fann ég fyrir stressi sem kom í ljós þegar myndatakan byrjaði, fyrsta myndin misheppnaðist svo hún tók aðra mynd sem var lítið skárri samt.  En mér fannst ég ekki geta beðið hana um að taka aðra mynd því það voru jú trilljón manns þarna frammi svo ég samþykkti hana.  Ó mæ god - sá eftir því strax!  En sem betur fer hef ég aldrei verið mikið fyrir því að flagga vegabréfinu mínu framan í aðra.  Og mun halda því áfram, allavegana næstu 10 árin eða svo.  Vegabréfið gildir jú bara í tíu ár.

Ég passaði vel upp á að gera ekki sömu mistök og seinast þegar ég fór í myndatöku fyrir vegabréf en á gömlu myndina vantaði augabrúnir. Ég er með svo ljósar augabrúnir að ef ég dekki þær ekki þá sjást þær ekki.  

Dagsverki mínu þennan daginn lauk strax og ég skrifaði undir nýja vegabréfið.  Var ekki lengi að láta mig hverfa og brunaði beint heim með viðkomu í Bónus Ögurhvarfi.  Byrjaði á því að létta á mér, borðaði svo og endaði á að næla mér í smá beuty svefn. 

Ég var uppgefin enda hafði ég nóttina áður legið andvaka í nokkra klukkutíma og var þar af leiðandi ósofin líka.

Takk í dag.

 


Fattarinn ótengdur.

Ji dúdda mía.  Ótrúlegt hvað það tekur oft langan tíma að kveikja á perunni, þó ekki í bókstaflegri merkingu.  Ég sem hef hingað til farið létt með það að leggja saman 2+2 og þar af leiðandi fundið svarið strax út.  Enn nei, ekki í þetta skipti greinilega.

Þegar ég byrjaði að æfa boxið þá var ég varla mætt í hús og byrjuð að boxa þegar ég fann fyrir nefrennsli og miklum kláða í nebbanum.  Reyndar á svipuðum tíma var ég á eða nýbúin að klára pensílin-kúr því læknir einn sagði að ég væri með kinnholubólgu því mánuðinum þar á undan fékk ég kvefpest.  Sem aldrei virtist ætla taka enda.  Svo ég tengdi þessi einkenni bara við veikindin.  En ekki hvað?

En svo leið á mánuðinn og ég byrjaði aðeins að pæla í þessu þar sem stundum var nebbinn góður tímana áður en ég mætti í boxið en svo allt í einu byrjaði nefrennsli að tikka inn svo ég lagði saman 2+2 og fattaði að ég gæti ekki lengur kennt kvefinu um.  Það hlyti að vera önnur skýring á þessu öllu saman. 

Hlyti bara að vera!

Ekki nóg með það heldur fæ ég kláðaköst upp úr þurru líka, áður en ég veit af er ég búin að klóra mér svo mikið að klórin verða mjög áberandi á handleggjum og fótum og stundum klóra ég mér til blóðs.  Skemmtilegt eða hitt og heldur!  Þetta er ekki búið enn heldur vakna ég alltaf eins og ég hafi ekki sofið í viku, ógeðslega bólgin undir augunum og með ljótuna á hæsta stigi.

En í gær í boxtímanum þá fékk ég þúsundastaogsjötta nebba kláðakastið mitt en það er mjög pirrandi því ég kom til að boxa en ekki klóra mér.

Allt í einu í þessu kláðakasti kveikti ég á perunni, lagði saman 2+2 og fattaði að boxhanskarnir eru líklega ástæðan.  Ég er jú að nota boxhanska sem kostuðu ekki nema 3.990.- enda úr gervi efnum.  En alvöru leður boxhanskar kosta frá 15.000.- og upp úr hérna á Íslandi.

Málið er nefnilega að ég er með ofnæmi fyrir gúmmí og latexi í það minnsta.  Get engan veginn notað einnota latex hanska (vann einu sinni á sambýli þar sem þeir voru notaðir 24/7). Á líka erfitt með að vaska upp með uppþvottahönskunum sem eru jú úr gúmmí.  En ég var fyrri til þó ég fattaði þetta ekki með boxhanskana fyrr en í gær en ég hitti ofnæmislækni fyrir viku sem fannst hugmyndin mín góð að senda mig í ofnæmispróf.  Er ekki enn búin að kynna mér hvaða efni eru í hönskunum mínum en það hlýtur að vera eitthvað ofnæmisvaldandi. Það er þegar búið að taka blóðsýni en sjálft prófið verður þó ekki gert fyrr en þann 18.maí.  #svomikiðaðgerahjáþessumlæknum.

Pant kaupa mér alvöru boxhanska í Texas.  Hitti annars móðurömmu mína í gær og það fyrsta sem hún spurði mig var hvort ég væri búin að kaupa mér "cowboy hat". GóÐ! Annars fíla ég kúreka-outfitið.  Það færi mér vel að vera í kúreka stígvélum, í gallabuxum og köflóttri skyrtu og með "cowboy hat".  Myndi nú láta það vera að sitja nautin samt.  Það er ekki minn tebolli.  En ég skal vera í klappliðinu.  Skil annars ekkert í mér að hafa ekki verið löngu búin að kaupa mér köflótta skyrtu þar sem ég dýrka þetta munstur.  Í staðinn geng ég bara næstum því á vegg þegar ég mæti myndarlegum karlmanni í fallegri köflóttri skyrtu.  I love it!

Svo hef ég líka lengi langað að læra línudans.  Já, ég sagði línudans. Ætli ég hafi ekki verið kúreka-stelpa í fyrra lífi.

Takk og gleðilega páska.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hva, bara engin ritstífla í dag.

Mér finnst einhverra hluta vegna vera mjög langt síðan ég bloggaði seinast.  Samt eru ekki nema 8 dagar síðan sem er jú ekkert svo langur tími.  Ég setti mér markmið þegar ég stofnaði þetta blogg að ég ætlaði bara að blogga á virkum dögum og þá bara þegar ég væri stödd @ Janus.  Þar sem virku dagarnir eru ekki nema 5 og suma dagana gefst varla tími til að blogga vegna anna en ég þarf jú að fylgja ákveðinni stundaskrá @ Janus.

Svo lendi ég stundum í því loksins þegar ég hef tíma þá finnst mér ég hafa nákvæmlega ekkert að segja eða með svo mikla ritstíflu að mig langar að garga á tölvuskjáinn.  Sem ég sleppi reyndar.  Því Lára öskrar ekki!

Síðustu tvær vikur hafa liðið alveg ótrúlega hratt finnst mér.  Eina breytingin er einkaþjálfunin í boxi en það munar svo sannarlega að bæta því inn í rútínuna mína sem var nú ekki mikil fyrir.  Ég er varla farin frá Hnefaleikastöðinni þegar ég mæti þangað aftur.  Svo fljótur er tíminn að líða. 

En það er bara gaman.  Því þá er skemmtilegt.  Og þegar það er skemmtilegt þá líður mér vel.

Síðasta vika tók reyndar svolítið á andlega séð.  Ekki á neikvæðan hátt samt.  Síðasta miðvikudag tók ég greindar- og vitsmunapróf hjá sálfræðingnum mínum sem tæmdi á mér heilann gjörsamlega.  Við sátum streitulaust í heila 2 tíma, hann spurði mig spjörunum út og ég gerði mitt besta að finna svarið við spurningunum en reglulega þurfti ég að kafa djúpt inn í heila til að finna svarið.  Og sumar spurningarnar.  Vá! 

Ég þurfti ekki bara að svara spurningum heldur þurfti ég að leysa nokkrar þrautir innan ákveðins tímaramma.  Ég fann svo sem ekkert fyrir því að sitja í þessa 2 tíma og svara non stop, mér þótti þetta próf í heildina áhugavert en líka þreytandi til lengdar.  Samt pínu skemmtilegt en líka erfitt.  Eftir prófið brunaði ég beint heim, lagðist á sófann og rotaðist.

En ástæðan fyrir þessu prófi var sú að þetta er hluti af greiningarferli sem ég er að byrja í en hugsanlega er ég með Asperger.  Ég skora allavega hátt í skimuninni.

Sagan er ekki búin.  Daginn eftir mætti ég svo í Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna þar sem ég átti bókaðan tíma en ég ákvað að taka þátt í rannsókn á vegum Íslenska erfðagreiningu í þágu vísindanna.  Eina sem ég vissi fyrirfram var að ég átti að mæta 12:45, rannsóknin myndi vara í 3-4 tíma og það væri tekin blóðprufa.  Og þurfti ekki að vera fastandi.  Gott mál.

Fyrst var ég mæld mjög nákvæmlega á alla vegu og teknar myndir af mér.  Svo var ég spurð endalausra persónulegra spurninga.  Eftir það svaraði ég öðru spurninga flóði sem ég þurfti að hlusta á með góðri athygli.  Leysti nokkrar athyglis-þrautir á snertiskjá líka.  Til að toppa þessa rannsókn þá þurfti ég að taka samskonar greindar- og vitsmunapróf sem ég tók deginum áður.  Great!  Sem betur fer voru spurningarnar og þrautirnar ekki alveg þær sömu en samt mjög líkar.  Ég byrjaði nú bara að geispa akkúrat á þessum tímapunkti.  Þó mér hafi fundist prófið deginum áður pínu skemmtilegt þá langaði mig ekkert sérstaklega að taka það aftur, hvað þá næsta dag.  Mér tókst þó að leysa eina þrautina sem mér tókst ekki í fyrri tilrauninni.  En eitt af verkefnunum var að raða saman nokkrum kubbum sem átti að sýna ákveðna mynd og það undir ákveðnum tímaramma.  Þessi ákveðna mynd var flókin en ég notaði aðra sýn á það verkefni í seinna skiptið.  Og búmm.  Tókst að leysa hana. 

Til hamingju Ég.

Allra síðasta verkefnið mitt á þessari rannsóknastofu var að sitja fyrir framan tölvuskjá (snertiskjá) með fulla athygli en ég þurfti að horfa 180 sinnum á sama einstaklinginn sem birtist ekki nema í 1 sekúndu og taka eftir hvaða svipbrigði hann var með.  Ég þurfti ekkert frekar að vera exstra fljót að svara en ég hafði um 6 svipi að velja; undrun, hamingjusamur, depurð, andstyggð, ótta og reiði.  Eftir fyrstu 90 andlitin þá mátti ég taka pásu sem ég afþakkaði því mig langaði að klára þetta verkefni sem fyrst svo ég gæti brunað heim og andast á sófanum mínum.  Þarna var klukkan líka að nálgast 16:30. Geisp! 

Umbunin mín fyrir að gefa mér tíma og taka þátt voru 10.000 krónur gjafabréf í Kringluna.  Gat líka valið um Smáralind.  Hefði líka geta valið að fá 66 gráður Norður peysu sem ég mátaði en hún fór mér ekki vel.  Ég persónulega hefði tekið þátt þó ég hefði ekki fengið neitt fyrir, allt fyrir þágu vísindanna.  Það er svo mikið Ég.

 

Jæja, læt þetta duga í bili. 

 

 

 

 

 


Draumur að rætast.

Draumurinn rættist í gær þegar ég pantaði flug með aðstoð vinkonu minnar til Bandaríkjanna en þangað hef ég aldrei farið en lengi langað að fara. Vinkona mín sem er líka systir hennar býr í Galveston Tx með eiginmanni sínum sem er þaðan.  

galveston1

 

 

Galveston is a coastal city located on Galveston Island and Pelican Island in the U.S. state of Texas. The community of 208.3 square miles, with its population of 47,762 people, is the county seat and second-largest municipality of Galveston County.

 

 

 

Þar sem ferðalagið er langt og tíma mismunurinn mikill þá fannst mér við hæfi að stoppa hjá henni í heilar 3 vikur.  Enda er óvíst hvenær ég hef efni á að fara aftur út.

Ég flýg út þann 2.júní til Boston.  Flýg svo sama dag til Houston með millilendingu í Baltimore.

Þremur vikum seinna eða 23.júní þá millilendi ég í Atlanta á leið minni til Boston og þaðan til Íslands.

Ég hef ekki hugmynd um hvað bíður mín þarna úti.  Þó veit ég að það bíður mín STÓR heimur. RISASTÓR heimur.  Ég mun lengi lifa á þessari draumaferð svo mikið er víst.

Í dag eru 11 vikur til stefnu.  Ellefu!  

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband